Sunday, June 27, 2010


Sælir foreldrar

Því miður vorum við ekki í tölvusambandi á meðan við vorum í Eyjum. Og eins og alltaf var í nógu að snúast og ótrúlega gaman.
Það gekk frábærlega vel hjá Frömurum í ár og komum við heim með 2 bikara, eitt silfursæti og 2 brons. Frábær árangur hjá öllum okkar strákum sem börðust eins og ljón alla helgina og voru glaðir og kátir sama hvernig fór í leikjunum.

Lið 2 og 4 urðu í fyrsta sæti í sínum riðlum (Álseyjarbikarinn og Eldfellsbikarinn)

Lið 5 varð í 2 sæti eftir 1-1 jafntefli (Stjarnan skoraði á undan) (Ystaklettsbikarinn)

Lið 1 og 3 urðu í 3 sæti í sínum riðlum (Shellmótsbikarinn og Suðureyjarbikarinn)

Lið 6 var í 5 sæti í sínum riðli (Ystaklettsbikarinn)

Viktor Gísli var valinn í Landsliðið fyrir Landsleikinn á mótinu og skoraði hann mark í þeim leik.

Tryggvi Snær og Stefán Árni Geirssynir voru síðan báðir valdir í Shellmótslið Shellmótsins 2010 og vorum við eina liðið með tvo leikmenn í því liði. Frábært hjá ykkur strákar.

Okkur hjá foreldraráði 6 flokks langar til að þakka strákunum okkar fyrir frábært mót þið voruð æðislegir. Okkur langar líka að þakka þjálfurunum okkar Tóta og Villa fyrir sitt starf, öllum foreldrum sem hjálpuðu okkur og stóðu við bakið á strákunum eins og klettur. Þetta var frábært að sjá hvernig þetta var eins og vel smurð vél hjá okkur í Eyjum. Ég vona að allir hafi verið ánægðir með mótið og strákarnir sáttir.

Það var tekið fullt af myndum í Eyjum og stóðu myndatöku menn hvers liðs sig frábærlega. Verið er að vinna að því að koma öllum myndum inn á netið. Endilega þeir sem eiga góðar myndir af strákunum komið þeim til okkar svo við getum komið þessu öllu inn. Hermann er að sjá um að koma þessu inn á netið fyrir okkur og vonandi fáum við að sjá afraksturinn fljótlega. Þetta eru ansi margar myndir en vonandi kemst þetta allt inn.

Takk fyrir allt strákar, þjálfarar og foreldrar.


Fyrir hönd foreldrafélags 6 flokks
Sigrún Edda


Wednesday, June 16, 2010

Fundur á sunnudagskvöldið!!!

Kæru foreldrar,

Nú eru bara örfáir dagar til stefnu. Eins og við ræddum um í síðustu viku ætlum við að halda síðasta fundinn með strákunum og foreldrum rétt fyrir ferðina. Sá fundur verður haldin n.k. sunnudagskvöld kl 19:30 í Fram heimilinu. Þá fá strákarnir tækifæri, og ekki síst þið foreldrar, að hitta liðstjórana, liðsfélaga og aðra foreldra. Talað var um að halda fundinn á mánudeginum en þar sem eitthvað er um að fólk verði farið til Eyja þá höfum tekið ákvörðun að hald fundinn á sunnudagskvöldinu því mikilvægt er að allir mæti á fundinn.
Við munum fara yfir skipulag ferðarinnar, leikskrá, reglur og önnur mál. Þjálfararnir Tóti og Villi verða einnig á fundinum með okkur.
Það er því mikilvægt að allir mæti á sunnudagskvöld. Ef þið sjáið ykkur ekki fært á að mæta vinsamlega látið okkur vita.

Það hafa borist nokkrar spurningar til okkar varðandi fargjald með Herjólfi. Við vildum því koma þeim upplýsingum á framfæri að börn undir 12 ára aldri fá frítt í Herjólf, því hefur það ekki áhrif á mótsgjöld ef börn fara ekki í Herjólfi með liðinu.
Hlökkum til að sjá ykkur á fundinum á sunnudagskvöldið kl. 19:30

Bestu kveðjur
Foreldraráð 6 flokks

Thursday, June 3, 2010

Reykjavík, 2. júní 2010

Sælir foreldrar.

Nú er rétt tæpur mánuður í ferðina okkar á Shellmótið í Eyjum. Fram fer með 6 lið á mótið og núna eru 48 strákar skráðir. Enn er pláss fyrir 4 stráka í viðbót þannig endilega látið okkur vita ef einhver hefur áhuga að taka þátt. Drengirnir, 12 fararstjórar og þjálfarar fara með Herjólfi þann 23. júní nk. kl. 19:30. Það er ýmislegt sem þarf að huga að og ekki ráð nema í tíma sé tekið.
Foreldraráðið ætlar að halda tvo fundi fyrir ferðina og er nauðsynlegt að foreldrar mæti á þá því það er ýmislegt sem þarf að ræða og skipuleggja. Fyrri fundurinn verður haldinn mánudaginn 7. Júní (næsta mánudag) kl. 19:30 og sá seinni verður haldinn tveimur vikum seinna eða þann 21. júní. Fyrri fundurinn verður haldinn í Fram-heimilinu.

Mótsgjaldið er 28.000 kr á dreng, innifalið í því er einnig Framtreyja sem er vatns og vindheld. Mátun fór fram á æfingu í gær miðvikudag því við þurfum að gera pöntun í þessari viku til að við verðum örugg um að fá þær afhentar fyrir mót.
Fyrir Shellmótið (og auðvitað alla leiki) þurfa strákarnir að eiga hvítar stuttbuxur og bláa Fram sokka. Gott væri ef strákarnir væru einnig í fatnaði merktum Fram milli leikja. Einnig langar okkur hjá foreldraráðinu hvetja ykkur foreldra og stuðningsmenn drengjanna okkar að reyna að vera svolítið bláir og jafnvel eitthvað Fram merktir á línunni. Látum Fram stuðningsliðið vera svolítið blátt og glæsilegt í ár. Hjá flestum liðum eru foreldrar í einhverju sem er merkt þeirra liði en það hefur vantað nokkuð hjá okkur. Við skulum reyna að breyta því. Á fundinum á mánudaginn ætlar Fram að vera með sölu á Fram fatnaði og við hvetjum ykkur foreldrana til að kíkja á hvað stendur til boða. Þar verður t.d. hægt að finna sokka og stuttbuxur fyrir strákana eða jafnvel eitthvað flott á stuðningsmennina. Tilvalið er því að nýta ferðina til þess að græja Fram klæðnaðin, ef ekki er allt klárt nú þegar.


Innifalið í mótsgjaldinu er morgun-, hádegis- og kvöldmatur en nesti á milli leikja, drykkir og kvöldhressing þarf Fram að koma með sjálft. Við viljum því biðja ykkur foreldra um að hjálpa okkur að verða okkur út um brauð, álegg, ávexti, drykki, kex o.fl. til að taka með. Við munum fara yfir þetta betur á fundinum á mánudaginn. Við ætlum einnig að biðja einhverja um að baka muffins, snúða og eitthvað fleira til að taka með. Það eru einu sætindin sem verða leyfð í ferðinni. Endilega látið okkur vita ef þið getið reddað einhverju með því að senda okkur póst á fram6flokkur@gmail.com eða með því að láta okkur vita á fundinum á mánudaginn.
Ef þið getið fengið t.d. regnslár, drykkjarbrúsa o.s.frv. f. liðin þá endilega látið okkur einnig vita.

Við viljum minna á að í reglum Fram segir að það þurfi að vera búið að greiða þáttökugjöld Fram fyrir mót. Þeir sem eiga eftir að greiða ekki gleyma að úthluta frístundarkortinu upp í þáttökugjöldin (http://www.rvk.is/desktopdefault.aspx/tabid-3697/6079_view-1524/). Við hvetjum því alla til að ganga frá þáttökugjöldunum ef þið eruð ekki þegar búin að því eða hafa samband við gjaldkera knattspyrnudeildarinnar Kötu eða Björgvin.

Núna er fjáröflun í gangi og hvetjum við alla að taka þátt í henni, en hún er sú síðast í bili. Þeir sem ekki ætla að taka þátt í fjáröfluninni geta lagt inn á reikning 0114-26-008134 Kt. 660184-0589 kr. 28.000. Vinsamlegast setjið kennitölu barns í skýringu.

Hlökkum til að sjá ykkur á mánudaginn. Við munum senda póst og minna á fundinn.

Með góðri kveðju,
Foreldraráð 6.fl.kk. Fram